Fjallkonan

Ljóð: Freysteinn Gunnarsson. Lag: Sigfús Einarsson. Úts. f. kvennakór; Jakob Tryggvason

Ein hún starir yfir mar
yst á hjara veraldar,
há und himintjaldi,
hjúpuð aldafaldi,
ein hún starir yfir mar.
Ymur hret og ýfist sær,
oft er vetur henni nær,
samt er sól á vanga
sumardaga langa,
þegar andar blíður blær.
Ár og aldir þungar
yfir hana liðu.
Ætíð vonir ungar
eftir henni biðu.

Þegar harðindi´ í hamför geystust,
hennar kraftar úr ánauð leystust.
Þegar elli til útfarar bjó,
hin unga sveit gegn feiknstöfum hló.

Drottning hranna, íss og elds,
allir fram til hinsta kvelds
synir þínir sverja
sóma þinn að verja,
drottning hranna, íss og elds.
Þó að gnauði hret og hríð,
herði nauð og æði stríð,
enn skal áfram halda,
allar skuldir gjalda.
Bíður síðar betri tíð.
Geyma skal og skíra
skjaldargullin fögur,
ættararfinn dýra,
óð og tungu´ og sögur.

Munablómin, sem bjartast skína,
bindur æskan í krónu þína,
djásnin fögru, sem dýrð þín oss gaf,
þú drottning, fjærst við ysta haf.