Kórfélagi kvaddur

Kvennakór Akureyrar tók þátt í því í gær að veita Sólveigu Hrafnsdóttur, söngkonu í alt 1, sína hinstu kveðju þegar hún var jarðsungin í Akureyrarkirkju.

Sólveig féll frá 10. janúar, en hún hafði sungið með kórnum um árabil og meðal annars setið í stjórn kórsins. Hún var dýrmætur kórfélagi og hennar verður sárt saknað.

Kórkonur votta eiginmanni Sólveigar og aðstandendum sína dýpstu samúð og lýsa þakklæti sínu fyrir að fá að taka þátt í þessari fallegu athöfn.

Á döfinni

Á æfingadegi í MA

Æfingar á haustönn undir stjórn nýs kórstjóra hafa gengið vel. Æfingadagur var haldinn 10. nóvember og var þá m.a. byrjað að æfa jólalögin.

Að þessu sinni heldur kórinn ekki sína eigin jólatónleika en tekur þess í stað þátt í tvennum tónleikum með öðrum kórum.

Sunnudaginn 15. desember verða fyrri tónleikarnir kl. 16:00 í Glerárkirkju ásamt Kirkjukór Glerárkirkju.

Seinni tónleikarnir verða fimmtudaginn 19. des kl. 19:00 en Karlakór Eyjafjarðar bauð Kvennakór Akureyrar og einum barnakór að syngja þar með sér sem gestakórar. Þar verða einnig einsöngvararnir Helena Guðlaug Bjarnadóttir, Margrét Árnadóttir og Pálmi Óskarsson.

Nánari upplýsingar eða auglýsingar um þessa tónleika birtast hér síðar.

Æfingar að hefjast með nýjum kórstjóra

Í dag hefjast æfingar kórsins á haustönn. Nú hefur verið skipt um um æfingastað og æfingar flytjast úr Brekkuskóla í Menntaskólann á Akureyri.

Sigrún Magna Þórsteinsdóttir hefur látið af störfum sem kórstjóri, við þökkum henni frábært samstarf og í hennar stað bjóðum við velkominn nýjan kórstjóra, Valmar Väljaots.

Valmar er fjölhæfur og margreyndur tónlistarmaður sem kom hingað til lands frá Eistlandi fyrir 25 árum og hlökkum við kórkonur til samstarfsins við hann.

HÁTÍÐARDAGSKRÁ TIL HEIÐURS FRÚ ELÍSABETU Á 150 ÁRA AFMÆLISÁRI HENNAR

19. JÚNÍ KL. 17:00

Á kvenréttindadaginn minnumst við Frú Elísabetar Jónsdóttur kvenréttindakonu og tónskálds frá Grenjaðarstað á 150. aldursári hennar. Við heiðrum frúna með því að flytja tónlist hennar og frumsýna heimildamynd um hana í Hömrum.

Frú Elísabet naut tónlistarmenntunar ung að árum í Húsinu á Eyrarbakka sem á þeim tímum var vagga menningar á suðurlandi og þegar hún flytur að Grenjaðarstað má segja að hún endurskapi það heimilið þar.

Frú Elísabet barðist fyrir kosningarétti kvenna á Íslandi, tók þátt í stofnun kvenfélaga, stofnaði blað til að skrifa greinar um málefni kvenna sem og önnur samfélagsmál. Hún var ein af þeim fyrstu til að fá lög sín birt á prenti og einnig til að gefa út sönglagahefti. Þrátt fyrir þetta allt hefur minning frú Elísabetar smám saman dofnað í tímans rás. Þó lifa sögurnar um ástarlíf hennar enn meðal fólks. Allt um það í heimildamyndinni Frú Elísabet.

Tónlistarflutningur á hátíðinni verður í höndum:

Ásdísar Arnardóttur, selló
Fanneyjar Kristjáns Snjólaugardóttur, söngur
Kvennakórs Akureyrar, kórsöngur
Mariku Alavere, fiðlu
Sigrúnu Mögnu Þórsteinsdóttur, píanó og kórstjórn

Fínn klæðnaður er viðeigandi á þessarri hátiðarstundu og viljum við hvetja allar konur til að klæðast upphlut eða peysufötum.

 

Sett hefur verið af stað söfnun inn á Karolina Fund fyrir verkefninu og hvetjum við þá sem hafa tök á að styrkja verkefnið. Hér má sjá frekari upplýsingar um söfnunina.

Viðburðurinn hlaut styrk frá listsjóðnum VERÐANDI

 

Vortónleikar í Akureyrarkirkju

Kvennakór Akureyrar heldur vortónleika sína í Akureyrarkirkju á mæðradag, 12. maí 2019 kl. 14:00. Kvennakórinn syngur tónlist úr ýmsum áttum, þar á meðal lög sem verða flutt á kóramóti í Verona í lok júní.

Kvennakór Háskóla Íslands verður sérstakur gestur á tónleikunum og syngur undir stjórn Margrétar Bóasdóttur.

Kvennakór Akureyrar býður tónleikagestum í veglegt kökuhlaðborð í safnaðarheimilinu að tónleikum loknum. Miðaverð er kr. 4000,- en ókeypis er fyrir 15 ára og yngri. Enginn posi.

Stjórnandi er Sigrún Magna Þórsteinsdóttir.

Akureyrarstofa er styrktaraðili tónleikanna.

Fréttabréf í mars

Myndin er tekin á æfingadegi við Hótel Natur á Svalbarðsströnd.

 

Vorönnin hjá Kvennakór Akureyrar verður fjölbreytt og skemmtileg eins og svo oft áður.  Æfingar hófust 20. janúar og koma til með að standa fram í júní þar sem fyrir höndum er 5. utanlandsferð kórsins. Að þessu sinni verður stefnan tekin á kóramót í Verona á Ítalíu og stendur ferðin yfir frá 26. júní til 8. júlí en nánar um það síðar.

Æfingadagur var haldinn á Hótel Natur á Svalbarðsströnd þann 2. febrúar frá kl. 9:00 til 17:00 og tókst hann í alla staði vel og skilaði góðum árangri.

Tvisvar í vetur hefur verið haldið bingó í Brekkuskóla með góðri þátttöku. Í hléum stóð bingógestum svo til boða að kaupa veitingar og er þetta liður í fjáröflun fyrir Ítalíuferðina.

Fjölmörg verkefni eru framundan sem nánar verður sagt frá jafnóðum. Má þar nefna afmælistónleika Jaan Alavere 6. apríl og söng á skafli í Hlíðarfjalli um páskana. Á mæðradaginn 12. maí syngur kórinn við messu í Akureyrarkirkju og heldur síðan vortónleika sama dag og á sama stað með þátttöku Kvennakórs Háskóla Íslands. Þann 19. júní hefur kórinn verið beðinn að syngja við frumsýningu heimildamyndar um Elísabetu Jónsdóttur frá Grenjaðarstað.

Af þessu má sjá að í nógu er að snúast og margt spennandi framundan hjá Kvennakór Akureyrar.

 

Jólatónleikar Kvennakórs Akureyrar

Kvennakór Akureyrar heldur jólatónleika sína í Akureyrarkirkju fimmtudaginn 13. desember kl. 20:00.   Á dagskránni verða jólalög úr ýmsum áttum.

Stjórnandi kórsins er Sigrún Magna Þórsteinsdóttir og einsöngvarar eru Halla Ólöf Jónsdóttir og Helga Kolbeinsdóttir.

 

 

F.v.  Sigrún, Halla Ólöf
og Helga

 

Helena Gudlaug Bjarnadottir leikur á píanó og Petra Óskarsdóttir á flautu.

Almennt miðaverð verður kr. 3000, en frítt fyrir börn yngri en 14 ára.

Enginn posi á staðnum.