Akureyri – Perla Norðurlands

Ljóð: Hugrún. Lag: Birgir Helgason

Innst við Eyjafjörðinn
undir skjóli fjalla
stendur bær í brekku,
breiðir sig um hjalla.
Gróður garða prýðir,
gælir dögg við fræin.
Morgunsólin mynnist
móðurleg við bæinn.

Allar ársins tíðir
er hann skarti klæddur.
Hvítum voðum vafinn
verður töfrum gæddur.
Möttul grænan geyma
glæstar sumarvættir,
þar til blíði blærinn
berst um sund og gættir.

Þá er fjör á ferðum,
fleygir gestir kvaka.
Hörpu stilla strengi
stígir undir taka.
Þar er fólk á ferli,
flestir störfum sinna.
Bæði` í lofti` og láði
lífs er þrótt að finna.

Eld á hann í æðum
yljar landsins blóma.
Andans orkuverin
eru þar til sóma.
Risinn bær úr reyfum,
reginafli knúinn.
Framtaksakur er hann
ótal kostum búinn.