Aðalfundur KvAk var haldinn í Brekkuskóla 11. maí s.l. Á dagskrá voru venjuleg aðalfundarstörf, skýrsla formanns, skýrsla gjaldkera, kosningar í stjórn og fleira. Þá var rætt um nýafstaðið landsmót kvennakóra og undirbúning fyrir næsta landsmót árið 2014, en þá verður það einmitt í umsjón Kvennakórs Akureyrar og haldið á vordögum á Akureyri.
Nokkrar umræður voru um 10 ára afmæli kórsins en ætlunin er að halda upp á það í haust. Skipuð hefur verið nefnd til undirbúa afmælishaldið og er formaður hennar Helga Sigfúsdóttir.
Talsverð umskipti urðu í stjórninni þar sem formaðurinn Snæfríð Egilson lét af störfum, einnig varaformaður Ásdís Stefánsdóttir og meðstjórnandinn Una Berglind Þorleifsdóttir. Í stað þeirra komu Arnfríður Kjartansdóttir, Eygló Arnardóttir og Kamilla Hansen, en áfram sitja Soffía Pétursdóttir og Una Þórey Sigurðardóttir. Ný stjórn skiptir með sér verkum eftir stjórnarskipti 1. september. Með haustinu verður einnig kosið í nefndir.