Kl.9 stundvíslega var ekið af stað frá Winnipeg norður á bóginn og stefnan tekin á Árborg. Himininn skafheiður og hitinn bærilegur, ca 25°. Fljótlega blöstu við skilti með íslenskum bæjanöfnum og einhvern veginn vorum við að færast nær og nær Íslendingunum sem hingað fluttu á 19. öldinni. Í Árborg skoðuðum við minjasafnið Arborg & District Multicultural Heritage Village en þar gat að líta aðflutt hús íslenskra fjölskyldna, svo sem Sigvaldason House, Vigfússon House o.fl. Það var stórfenglegt að hitta í þessum húsum íslenskumælandi fólk sem sagði okkur sögu íbúa þeirra. Sum þeirra höfðu aldrei komið til Íslands og einn maður sagði okkur að hann hefði lært íslenskuna vegna þess að afi hans svaraði honum ekki ef hann talaði ekki íslensku! Í Árborg komum við einnig á heimili hjónanna Rosalind og Einar Vigfusson en þau eru miklir Íslendingar og taka á móti miklum fjölda íslenskra gesta. Rosalind stofnaði íslenskan barnakór og hefur komið með hann til Íslands. Einar er mikill tréskurðarmeistari og sker út og málar fugla og hefur hlotið verðlaun á heimsvísu fyrir. Frá Árborg var síðan haldið út í Mikley eða Hecla og er það hreint dásamlegur staður. Þar var skoðað minjasafn um veiðar í Winnipegvatni, ferðalangar voru fegnir að sjá vatn eftir allar slétturnar og sumir dífðu jafnvel tánum í. Þarna skoðuðum við hús, skóla og kirkju og tókum síðan lagið í kirkjunni. Næst var haldið til Riverton, snæddur kvöldverður, stutt æfing tekin og síðan tónleikar. Fjöldi manns mætti á tónleikana og sumir voru jafnvel búnir að fylgja okkur eftir og mæta á alla okkar tónleika. Á eftir var kaffi og meðlæti þar sem við gátum spjallað við fólkið og margir gátu spjallað eða alla vega skilið íslenskuna. Ekki má gleyma því að á borðum í Árborg og Riverton voru m.a. á borðum kleinur, pönnukökur, randalín og hjónabandssæla! Það var þreyttur en alsæll hópur sem kom á hótel í Winnipeg kl 11, en samt var sest niður í lobbyi til að bera saman bækur sínar og gleðjast yfir vel heppnuðum degi og tónleikum.