Spinna minni
Lag: Mist Þorkelsdóttir. Ljóð: Þórarinn Eldjárn.
Magna seiðinn, mjöðinn blanda.
Vakir vitund, veginn man hún:
Magna seiðinn megna,
mjöðinn teyga af blöðum.
Ekur vitund vakin
veginn sem hún eygir.
Augað næma áfram horfir
hitt í spegil spáir aftur:
Augað næma eygir
inn í framtíð minnist,
spáir hitt í spegil
spinnur þráð úr minni.
Halda þræði þúsund ára
spá og spinna spegilþráðinn:
Halda þræði huldum
halda þræði um aldir
spá í afturspegil
spinna þráð úr minni.
Þráðarsjónin þjóða
þannig veginn hannar
markar stefnu og merkir
miðar fram í móðu.
Magna seiðinn, mjöðinn blanda.
Vakir vitund, veginn man hún:
Magna seiðinn megna,
mjöðinn teyga af blöðum.
Ekur vitund vakin
veginn sem hún eygir.