Söngferð Kvennakórs Akureyrar til Slóveníu sumarið 2005.
Kvennakór Akureyrar hélt í sína fyrstu söngferð til útlanda þann 23. júní s.l. Hópurinn allur var 71 manns og samanstóð af 47 kórkonum, 20 eiginmönnum (puntstráum) og einu barni, einsöngvaranum Sigrúnu Örnu Arngrímsdóttur, kórstjóranum Þórhildi Örvarsdóttur, undirleikaranum Eyþóri Inga Jónssyni og mökum þeirra. Ferðin stóð í 2 vikur, tónleikar og skipulagðar skoðunarferðir voru í fyrri vikunni, en afslöppun á Portorož í þeirri seinni og hélt hluti af hópnum heim eftir fyrri vikuna.
Lagt var af stað frá Akureyri í rútu kl. 22:00 að kvöldi 22. júní og ekið til Keflavíkur þaðan sem flogið var um morguninn kl. 06:00. Lent var í Trieste á Ítalíu um hádegisbilið og þar tók á móti okkur fararstjórinn Damjan en hann og tveir rútubílstjórar áttu að sjá um okkur næstu vikuna. Ekið var rakleiðis til Nova Gorica í Slóveníu og gist þar fyrstu nóttina að aflokinni skoðunarferð í vínræktarhéraðið Goriška Brda.
Föstudaginn 24. júní var haldið norður í Triglav þjóðgarðinn, en þar er einstaklega fallegt og sjást þar hæstu tindar Júlíönsku Alpanna. Ekið var yfir 1611 m hátt fjallaskarð Vršic, síðan haldið áfram til Bohinj og þar var gist næstu tvær nætur. Bohinj dalurinn er að hluta til í fyrrnefndum Triglav-þjóðgarði. Hótelið okkar stendur við samnefnt vatn og þar var farið í bátsferð, gönguferð, paragliding og kláfferju upp á fjallið Vogel í 1535 m. hæð.
Að kvöldi laugardagsins 25. júní tók svo alvaran við en þá héldum við okkar fyrstu tónleika í kirkju í Bohinjska Bistrica á þjóðhátíðardegi Slóvena, 25. júní. Fengum við þokkalega aðsókn og ágætar undirtektir og var okkur boðið í drykki og meðlæti í safnaðarheimilinu á eftir.
Sunnudaginn 26. júní var lagt af stað til Bled. Það er dásamlega fallegur staður, himinblátt stöðuvatn með lítilli eyju, sem reyndar er eina eyjan í Slóveníu. Í henni er kirkja en bærinn umhverfis vatnið blómstraði á miðöldum sem áningarstaður pílagríma til þessarar kirkju. Þetta er eitt mesta ferðamannasvæði Slóveníu og er þekkt fyrir náttúrufegurð, heilsuræktarhótel og möguleika á iðkun ýmissa íþróttagreina og tómstunda.
Frá Bled var haldið til héraðsins Komenda, en þaðan er ein kórkonan okkar, hún Ana Korbar. Fjölskylda hennar opnaði heimili sitt fyrir okkur og hélt okkur frábæra veislu í mat og drykk og þökkuðum við fyrir okkur með söng. Því næst var haldið í bæinn Komenda. Þar tóku á móti okkur karl og kona í þjóðbúningum sem leiddu okkur um bæinn og í hina herlegustu veislu í boði ferðafélags bæjarins. Að lokum vorum við leyst út með gjöfum, hvert og eitt. Að sjálfsögðu var aftur sungið til að þakka fyrir sig.
Um kvöldið héldum við okkar aðra tónleika og nú undir beru lofti fyrir utan kirkjuna í Komenda. Í hléinu söng karlakór staðarins og einnig var þar þjóðdansasýning, mjög skemmtileg. Áheyrendur voru glaðir og undirtektir mjög góðar. Að afloknum tónleikum var kvöldverður í veitingahúsinu Pri Zajcu og enn sýndu heimamenn í Komenda sína frábæru gestrisni með því að veita okkur fría drykki með matnum. Því næst var ekið til höfuðborgarinnar Ljubljana og gist þar í tvær nætur.
Mánudaginn 27. júní vorum við um kyrrt í höfuðborginni og skoðuðum okkur um og versluðum. Ljubljana er mikil menningarborg og mætast þar gamli og nýi tíminn og menning austurs og vesturs. Íbúar eru um 280 þúsund.
Þriðjudaginn 28. júní ókum við svo af stað áleiðis til Vinska Gora, en það er heimabyggð fararstjórans Damjan. Þar skoðuðum við m.a. dádýrabú og grunnskóla staðarins og þáðum þar kökur og kruðerí sem mamma fararstjórans hafði bakað handa okkur. Næst var haldið á Spa-hótelið Topolšica og farið í sund, nudd eða sólbað eftir geðþótta, en síðan gert klárt fyrir þriðju og síðustu tónleikana, sem haldnir voru í kirkju í þorpinu Ponikva pri Žalcu ekki langt frá Vinska Gora. Þessir tónleikar tókust alveg sérdeilis vel og að sögn Þórhildar kórstjóra, sem nú var að stjórna okkur í síðasta sinn, höfðum við aldrei sungið betur. Fengum við frábærar undirtektir, kirkjan var nánast full af fólki, hitinn var kæfandi og svitinn bogaði af kórnum. Í hléinu léku tvær stúlkur á sítar og kirkjukór staðarins söng nokkur lög, þar á meðal „Undir dalanna sól” á íslensku! Urðum við afar snortnar af því og reyndar öllum þessum frábæru móttökum og gestrisni sem okkur var sýnd, því þarna var svo einnig boðið til veislu í safnaðarheimilinu á eftir.
Miðvikudaginn 29. júní héldum við lengra til austurs á leið til Jeruzalem, sem er mikið vínræktarsvæði. Á leiðinni var komið við á ferðaþjónustubýli, þar sem snæddur var léttur hádegisverður og færasti slóvenski barþjónninn sýndi listir sínar í kokteilagerð.
Þegar lokið var skoðun á Jeruzalem og búið að bragða á afurðum héraðsins var haldið til baka og suður á bóginn að Postonja hellunum og borðað og gist þar á Hotel Jama. Á leiðinni hrepptum við versta veður, þrumuveður og hvassviðri.
Fimmtudaginn 30. júní fórum við að afloknum morgunverði að skoða Postojnska Jama sem er með stærstu dropasteinshellum í heimi. Þeir eru um 20 km langir, alveg ótrúlegt náttúruundur og er farið um þá að hluta til með lest. Að því loknu var komið að kveðjustund, því að nú var hluti hópsins, eða 8 manns, að fara í 4-daga ævintýraferð til Trenta, og annar hluti, eða 19 manns, að fara heim til Íslands. Restin af hópnum hélt til Portorož til vikudvalar, en það er á 46 km strandlengju sem Slóvenía á að sjó við Adríahafið. Hitinn þar var ca 25-35 stig og oftast sólskin en einnig fengum við nokkrum sinnum að sjá og finna fyrir alvöru þrumuveðri og tilheyrandi rigningu. Heimleiðis héldum við svo frá Trieste að morgni dags þann 7. júlí og vorum komin heim til Akureyrar um kl. 22:00 um kvöldið, sólbrennd og með sælubros.
Þessi fyrsta ferð Kvennakórs Akureyrar út fyrir landsteinana verður okkur öllum sem tókum þátt í henni alveg ógleymanleg. Slóvenía er dásamlega fallegt land, einstaklega snyrtilegt og laust við rusl og fólkið sérlega gestrisið og afslappað. Gleðin, samstaðan og jákvæðnin í hópnum okkar var aðdáunarverð og við vorum stoltar af því að fá tækifæri til að kynna íslenska tónlist og kórsöng á erlendri grund. Við viljum hér með þakka hjartanlega öllum þeim sem aðstoðuðu okkur og gerðu okkur kleift að komast til Slóveníu og það er enginn vafi á því að innan fárra ára munum við reyna að komast aftur í svipaða ferð.