Ný stjórn var kjörin á aðalfundi 25. September 2016. Arnfríður Kjartansdóttir og Sólveig Hrafnsdóttir gengu úr stjórn og Halla Sigurðardóttir og Margét Ragúels voru kjörnar í þeirra stað. Stjórnin var þannig skipuð starfsárið 2016-2017: Formaður Þórunn Jónsdóttir alt 1, varaformaður Halla Sigurðardóttir alt 1, gjaldkeri Anna Breiðfjörð Sigurðardóttir sópran 2, ritari Valdís Björk Þorsteinsdóttir sópran 1, meðstjórnandi og lyklavörður Margrét Ragúels alt 2.
Raddformenn voru Guðrún Hreinsdóttir alt 1, Lilja Jóhannsdóttir alt 2, Hafdís Þorvaldsdóttir sópran 1 og Stella Sverrisdóttir sópran 2.
Eftir að Daníel Þorsteinsson hætti sem stjórnandi kórsins haustið 2016 tók Sólveig Anna Aradóttir við starfinu. Þegar ráðningu hennar við Akureyrarkirkju lauk hætti hún einnig störfum hjá Kvennakórnum, en þá tók Sigrún Magna Þórsteinsdóttir við keflinu og stýrði kórnum til vors.
Starf vetrarins 2016-2017 hófst með raddprufum og æfingu 11. september. Æfingar voru einu sinni í viku í Brekkuskóla, á sunnudögum kl. 17:00-19:00, sem síðar var breytt í 16:45-19:00.
Kórinn söng í messu í Akureyrarkirkju 25. September og fékk að launum að nota kirkjuna án endurgjalds undir jólatónleika sína sem haldnir voru 8. desember. Á tónleikunum söng Jónína Björt Gunnarsdóttir einsöng, Helga Kvam lék á píanó og Anna Eyfjörð Eiríksdóttir lék á flautu. Kórinn söng einnig á tónleikum fyrir íbúa Hlíðar 10. desember.
Skemmtinefnd kórsins, alt 2, stóð fyrir litlu jólum 4. desember. Þá var haldin sameiginleg skemmtun með Karlakór Akureyrar – Geysi 4. mars, en við það tækifæri var hún Sóla okkar kvödd, því hún var að hverfa frá okkur til annarra starfa.
Kórinn hélt tvisvar æfingadag að Þórisstöðum á Svalbarðsströnd, 19. nóvember og 11. mars.
Stærsti viðburðurinn á þessu starfsári verður samt að teljast tíunda landsmót íslenskra kvennakóra, sem haldið var á Ísafirði 11.-14. maí. Kórinn skrölti yfir fjöll og heiðar í samfloti við Emblurnar og komst í fréttirnar fyrir að teppa Öxnadalsheiðina á leið sinni vestur.
Haldnir voru 8 fundir stjórnar þar sem rituð var fundargerð, en þó voru óformlegir fundir fleiri, ýmist með tölvupósti eða á facebook. Stjórnendur sátu með stjórninni á fjórum fundum.
Kórinn sótti um ýmsa styrki á liðnu starfsári og fékk nokkra. Tölvuverð vinna var lögð í umsóknir um styrki vegna fyrirhugaðs verkefnis í samstarfi við Vandræðaskáldin Vilhjálm Bergmann Bragason og Sesselíu Ólafsdóttur. Því miður fengust þeir styrkir ekki, en þó er áhugi á að vinna áfram að því verkefni.
Síðasta starfsári lauk frekar skyndilega, en kórinn hafði stefnt á að halda vortónleika á annan í hvítasunnu, 5. júní. Á þeim degi reyndust allir mögulegir jafnt sem ómögulegir meðleikarar vera utan landsteinanna, svo að ákveðið var að fresta tónleikunum til haustsins.
Byggt á skýrslu stjórnar 2016-2017