Frá hátíðartónleikum á Landsmóti íslenskra kvennakóra í maí 2014 í Hofi
Saga kórsins 2013 – 2014
Byggð á skýrslu stjórnar 2013 – 2014
Breyting varð í stjórnarliði Kvennakórs Akureyrar á aðalfundi, 29. maí 2013. Eygló Arnardóttir gekk úr stjórn og í hennar stað kom Þórunn Jónsdóttir. Áfram sátu í stjórn; Anna Breiðfjörð Sigurðardóttir, Arnfríður Kjartansdóttir, Kamilla Hansen og Una Þórey Sigurðardóttir.
Landsmót íslenskra kvennakóra var mál málanna hjá kórnum starfsárið 2013-2014. Undirbúningur og framkvæmd mótsins var langstærsta verkefnið sem Kvennakór Akureyrar hafði ráðist í frá upphafi. Segja má að undirbúningurinn hafi hafist strax á Selfossi vorið 2011 þegar opinbert varð að næsta landsmót yrði haldið af Kvennakór Akureyrar á Akureyri vorið 2014. Landsmótsnefnd, skipuð valkyrjunum, Önnu Breiðfjörð Sigurðardóttur, Hólmfríði Þorsteinsdóttur og Snæfríði Egilsson, sá um skipulagningu og undirbúning frá upphafi og nutu þær aðstoðar annarra kórkvenna eftir þörfum. Kórinn vann ötullega undir stjórn nefndarinnar að þessu mikla verkefni sem lauk með landsmóti íslenskra kvennakóra á Akureyri dagana 9. – 11. maí.
Kórstarfið hófst með seinna móti þetta haustið og byrjaði með hópefli á Húsabakka í Svarfaðardal dagana 20. og 21. september. Tilgangur hópeflisins var að auka samheldni og þjappa kórkonum betur saman fyrir komandi verkefni, þ.e. undirbúning landsmóts. Dagana fyrir hópeflið unnu konur saman í hópum að ýmsum verkefnum og söfnuðu stigum af miklu kappi. Arnfríður Kjartansdóttir skipulagði hópastarfið með miklum ágætum. Verkefnavinnan og hópeflið á Húsabakka heppnaðist mjög vel og verður í minnum haft. Fyrsta kóræfing haustsins var sunnudaginn 22. september.
Söngverkefni utan hefðbundinna tónleika bjóðast kórnum af og til. Að þessu sinni bauðst kórkonum að syngja í brúðkaupi í ágúst og höfðu þær mikla ánægju af.
Akureyrarvaka var að venju haldin í lok ágúst. Kvennakór Akureyrar tók þátt í dagskrá sem fram fór í Lystigarðinum föstudagskvöldið 30. ágúst. Þar söng kórinn meðal annars angurvært ljóð um hin rauðu fögru reyniber í hauströkkrinu og endaði með suðrænum söng ættuðum frá Afríku. Eflaust hefur söngurinn yljað einhverjum um hjartarætur í norðankælunni sem þá gekk yfir.
Æfingadagur að hausti var 26. október. Eins og oft áður var hann í Valsárskóla og í kórinn í fæði hjá kvenfélagskonum á Svalbarðstöndinni. Að þessu sinni aðstoðaði Helena Bjarnadóttir Daníel kórstjóra við söngæfingarnar. Sama dag fór fram í Reykjavík, aðalfundur Gígjunnar, sambands íslenskra kvennakóra. Þær Anna og Snæfríð í landsmótsnefndinni fóru á fundinn og héldu vel heppnaða kynningu á landsmóti íslenska kvennakóra.
Árlegir mæðrastyrkstónleikar voru haldnir í Akureyrarkirkju laugardaginn 7. desember. Að þessu sinni tóku kvennakórarnir Embla á Akureyri og Kvennakórinn Sóldís í Skagafirði þátt í tónleikunum ásamt Kvennakór Akureyrar. Þarna söfnuðust 313.400.- kr sem afhentar voru forstöðukonu Mæðrastyrksnefndar Akureyrar og nágrennis í tónleikalok. Tónleikarnir heppnuðust mjög vel og söng kóranna var vel tekið af áheyrendum enda ekki oft sem þrír kvennakórar syngja saman á tónleikum.
Að tónleikum loknum fóru KvAk konur á veitingastaðinn Örkina hans Nóa og héldu sitt árlegu jólateiti. Þar var snæddur jólagrautur og skemmtu kórkonur sér konunglega fram eftir kvöldi. Mikla kátínu vakti einstaklega hláturmildur jólasveinn sem kitlaði hláturtaugar kórkvenna rækilega. Skemmtunin var skipulögð af sópran 1 sem sá um skemmtanahald kórsins þennan vetur og nefndu sig „Í HÆSTU HÆÐUM“.
Sunnudaginn 8. desember fóru kórkonur milli deilda á Öldrunarheimilinu Hlíð og sungu gömul og góð jólalög fyrir heimilisfólk. Að þeim söng loknum var haldið í Öldrunarheimilið Lögmannshlíð og sungið þar einnig. Undirleikarar voru þær Hildur Petra, Soffía og Þórunn Jóns. Að syngja á Öldrunarheimilum Akureyrar er með því ánægjulegasta sem við KvAk konur gerum. Þakklátari áheyrendur en þetta aldna fólk eigum við ekki og það var gott að fara í kórjólafrí eftir svona kærleikssöng.
Fyrsta æfing á árinu 2014 var sunnudaginn 5. janúar og hófust þá æfingar fyrir landsmótið af fullum þunga. Kórkonur skiptu sér í allar sex smiðjur landsmótsins og þurftu því að æfa alls 22 lög.
Söngæfingahelgi var haldin að Húsabakka í Svarfaðardal helgina 25. – 26. janúar. Það var sungið, lært og mikið hlegið. Á laugardagskvöldinu var haldin kvöldvaka sem stelpurnar ,,Í HÆSTU HÆÐUM,, skipulögðu. Kórkonur sáu sjálfar um allan mat, hver rödd hafði sitt hlutverk í eldamennsku og framreiðslu. Þetta fyrirkomulag heppnaðist mjög vel, bæði hvað varðar fjárhag og skipulag. Sigrún Magna Þórsteinsdóttir var Daníel til aðstoðar á laugardeginum.
Það er orðin hefð að Karlakór Akureyrar – Geysir og Kvennakór Akureyrar syngi saman á þorrablóti heimilisfólksins í Hlíð. Þorrablótið var haldið föstudaginn 14. febrúar og að þessu sinni sungu báðir kórarnir einnig í Lögmannshlíð. Það mátti ekki á milli sjá hverjir skemmtu sér betur, áheyrendur eða flytjendur.
Æfingadagur að vori var haldinn laugardaginn 12. apríl. Að þessu sinni var ekki farið úr bænum og fengum inni í sal Menntaskólans á Akureyri.
Landsmót íslenskra kvennakóra var haldið á Akureyri dagana 9. – 11. maí eins og áður segir. Það var óumdeilanlegur hápunktur starfsársins. Mótið þótti takast afar vel í alla staði og þar skilaði sér öll sú mikla vinna sem kórkonur, stjórnandi og ekki síst landsmótsnefnd lagði á sig. Mótið stóð yfir frá föstudegi til sunnudags og æfingar stóðu yfir á 6 stöðum í einu. Tónleikur voru bæði á laugardegi og sunnudegi í Menningarhúsinu Hofi og hátíðarkvöldverður og dansleikur í Íþróttahöllinni á laugardeginum. Ríflega 700 konur prýddu bæinn á meðan á mótinu stóð og komu þær úr öllum landshlutum og einn gestakór kom frá Mandal í Noregi.
Vortónleikar voru haldnir í Laugarborg á uppstigningadag, 29.maí og þar var boðið upp á frían aðgang og kaffiveitingar og meðlæti að tónleikunum loknum. Með þessum tónleikum var ætlunin að þakka öllum þeim sem hjálpuðu okkur við framkvæmd landsmótsins.
Síðasta verkefni KvAk þessa starfsárs var að taka þátt í hátíðadagskrá í Lystigarðinum 17. júni.
Fjáraflanir. Engar venjulegar fjáraflanir voru á vegum kórsins en þeim mun meira leitað eftir styrkjum til stofnana og fyrirtækja. Kórkonur voru mjög duglegar og útsjónarsamar í þessum efnum, bæði við að safna styrkjum í allskonar formi svo og auglýsinga í mótsblaðið. Nefndastörf voru líka með öðru sniði, allar kórkonur höfðu sitt verkefni í nefndum sem tengdust skipulagningu og framkvæmd landsmóts á einn eða annan hátt.
Heimasíðan var uppfærð eftir áramót og útliti hennar breytt í takt við nýja tíma. Heimasíðan gengdi mikilvægu hlutverki í að miðla fréttum og upplýsingum varðandi landsmótið.
Kórpallar bættust við veraldlegar eigur Kvennakórs Akureyrar. Ættingjar og puntstrá kórkvenna sáu alfarið um smíðina og var kostnaður við pallana lítið meiri en efniskostnaðurinn.
Nokkur hreyfing var á liðsheild kvennakórs Akureyrar á árinu. Það bættust við nýjar konur og aðrar hættu. Auglýst var eftir nýjum og ferskum röddum í kórinn í byrjum september með góðum árangri. Alls mættu 10 konur í raddprufur í haust og tvær bættust við eftir áramót. Í nýliðahópnum voru tvær þýskar háskólastúlkur sem voru við nám og starf hér á Akureyri og sungu með okkur í vetur. Það er gaman að fá svona farfugla í hópinn, vonandi verður framhald á því. Vorið 2014 var 61 kona skráð í kórinn en, 55 af þeim virkar í starfinu.
Kóræfingar hafa oftast farið fram í Brekkuskóla. En eins og áður víkjum við ef skólinn er upptekinn og höfum þá leitað í hin skjólin okkar, þ.e. Hlíð, Lón og MA.
Fundir stjórnar voru 11 á starfsárinu. Auk þess var mikið um óformlega örfundi sem ekki voru skráðir.