Sumarið 2008 hætti Arnór Vilbergsson kórstjórninni sem hann hafði haft með höndum í 3 ár. Þá hófst leit að nýjum stjórnanda, sem ekki tók langan tíma, því Jaan Alavere sem hafði verið úti með kórnum í Eistlandi þáði boðið um að gerast stjórnandi kórsins frá haustinu 2008. Því miður sagði Jaan starfi sínu lausu um áramót vegna veikinda. Enn hófst leit að nýjum stjórnanda og var þá Daníel Þorsteinsson fenginn til liðs við okkur frá febrúar 2009.
Starfsárið byrjaði annars með pompi og prakt 7. september 2008. Áður hafði kórinn þó tekið þátt í Akureyrarvöku í lok ágúst.
Útgáfutónleikar voru haldnir 10. október í Lóni þar sem geisladiskurinn var kynntur, en um leið var tækifærið notað til að kveðja Arnór og taka á móti Jaan. Þetta voru flottir tónleikar þar sem þeir kumpánar stjórnuðu báðir og seinna um kvöldið var horft á myndasýningu í boði Helgu Gunnlaugsdóttur og Aðalbjargar og notið veitinga í boði stjórnar og nokkurra kórfélaga.
Árlegir styrktartónleikar fyrir mæðrastyrksnefnd voru haldnir 30. nóvember. Þar nutum við liðsinnis Karlakórs Akureyrar Geysis og Söngfélagsins Sálubótar, Valmar Väljaots spilaði á píanó og Tarvo Nómm á bassa. Aldrei hafði áður safnast eins vel og nú og í lok tónleikana afhentum við stoltar Jónu Bertu 500.000 krónur. Eftir þessa tónleika fór hluti kórkvenna og gæddu sér á dýrindis hlaðborði á La Vita Bella.
Á aðventunni hlaust kórnum sá stóri heiður að syngja á aðventutónleikum 6. desember með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, sem einnig hafði fengið einsöngvarana Dísellu Lárusdóttur og Jóhann Smára Sævarsson með sér. Þessir tónleikar tókust með eindæmum vel og var kórnum hrósað mikið fyrir góða frammistöðu, en kórinn flutti m.a. annars lög eftir Jaan. Eftir tónleikana fór hluti af kórnum út að borða á Allanum með hljóðfæraleikurum og einsöngvurum og skemmtu sér konunglega yfir óvenjulegu en mjög góðu jólahlaðborði.
Litlu jólin voru einnig haldin á síðusta æfingardegi fyrir jól með hefðbundnu sniði.
Þórgnýr Dýrfjörð hjá Akureyrarstofu bað um söng í miðbænum fyrir jólin og hittust nokkrar konur úr kórnum með jólasveinahúfur og Jaan með nikkuna og sungu fyrir gesti og gangandi í miðbænum í 10 stiga frosti. Að lokum fengum við fólk með okkur í að ganga í kringum jólatréð á Ráðhústorginu.
Haustönnin var þá á enda og fyrsta æfing á nýju ári skipulögð 11. Janúar 2009.
Það fór þó á annan veg þar sem nú þurfti að finna nýjan stjórnanda eins og fyrr segir. Fyrsta æfing með nýjum stjórnanda varð ekki fyrr en 1. febrúar en fram að þeim tíma hafði kórinn hist og rætt málin, og einnig fengið Valdísi Jónsdóttur, talkennara til að koma og halda fyrirlestur um góða raddbeitingu, fræðslu um raddböndin og fleira og kynnti hún aðferð til að æfa raddböndin og þindina, svo kallaða röraaðferð.
Æfingarhelgar voru tvær á starfsárinu, 31. október hittist kórinn að Stórutjörnum og æfðu frá föstudegi til laugardags, og gistu í skólanum. Þetta var lærdómsrík og skemmtileg helgi þar sem einnig var pláss fyrir grín og gleði. Hin æfingarhelgin fór fram í Brekkuskóla og Lóni, frá 13.-14. mars þar sem tekist var á við nýtt prógram ásamt nokkrum af lögunum okkar frá því um haustið. Þessi æfingardagur tókst líka mjög vel og var gott tækifæri til að kynnast nýjum stjórnanda. Á eftir var boðið upp á Subway mat, gos og kökur. Raddæfingar með stjórnanda voru nokkrar á starfsárinu og kom Mikael Jón Clarke á tvær æfingar í forföllum Daníels.
Vortónleikar voru 2. maí í Laugaborg, og þangað komu um 100 gestir. Tónleikarnir gengu langt framar vonum og á eftir bauð kórinn upp á „afganga“ af 1. maí kaffinu og féll það í góðan jarðveg hjá tónleikagestum. Um kvöldið var svo borðað saman og skemmt sér fram á nótt við söng og spil
Fundir stjórnar voru 11 á árinu og þá ekki meðtaldir óformlegir fundir stjórnar og fundir stjórnar og nefnda.
Á haustdögum var ákveðið að ráðast í að fá kórbúning á allan kórinn. Saumakompuna ásamt búninganefndinni hannaði flotta kjóla fyrir kórinn, sem fyrst voru notaðir í vorferðinni 2009 til Neskaupsstaðar.
Vinna nefnda var mjög góð, hafa þær unnið frábært starf og gert það að verkum að kórastarfið hefur gengið sem best fyrir sig. Fjárjöflunarnefnd stóð fyrir 4 kökubösurum og einnig fékk kórinn það verkefni að vinna í Kjarnaskógi, verkefni sem var gaman að og öðruvísi að takast á við. Jólabasar var haldinn í Norðurporti þar sem seldar voru kökur og ýmis konar varningur, jólaskraut og fleira og þann 1. maí var staðið fyrir frábæru kökuhlaðborði á hátíðasamkomu í Sjallanum og fyrir það var greitt um 500.000 krónur.
Ferðanefndin sá til þess að konur gátu skemmt sér og farið áhyggjulausar í ferðalög á árinu, og þar má helst nefna Eistlandsferðina um sumarið 2008. Heimasíðunefndin sá til þess að upplýsingar og annað væri uppfært á heimasíðunni. Jólakortanefnd starfaði hjá kórnum og sá til þess að um jólin væri hægt að fá falleg jólakort með myndum eftir kórkonur og ekki síst falleg orð og ljóð með, sem er okkar aðalsmerki. Kaffinefndin sá til þess að þyrstar kórkonur gátu fengið sér kaffi í hléum, en breyting var þar á þegar ákveðið var að hætta við það. Nefndin starfaði þá áfram og sá um kaffi við önnur tækifæri. Raddformenn voru mjög virkir og sáu um að merkja við konur á æfingum og einnig að koma skilaboðum áfram eftir þörfum.
Vorferð var farin til Neskaupsstaðar helgina 5. – 7. Júní. Tókst sú ferð mjög vel, sungið var í Norðfjarðarkirkju á laugardeginum og voru tónleikarnir vel sóttir. Einnig var sungið við í sjómannadagsmessu á sunnudeginum ásamt kirkjukór Norðfjarðarkirkju og farið í siglingu um fjörðinn með báta- og skipaflotanum.
Kórinn tók einnig þátt í Akureyrarvöku og söng um borð í Húna ásamt Karlakór Akureyrar Geysi, en fjöldi manns var saman kominn við Húna til að hlýða á sönginn.
Starfsárið í heild var mjög skemmtilegt og annasamt en einnig erfitt, en vilji allra var að vera með skemmtilegan kór og metnaðarfulla dagskrá.