Lög Kvennakórs Akureyrar
1. grein
Nafn félagsins er Kvennakór Akureyrar, skammstafað KvAk, og starfar á Akureyri og nágrenni.
2. grein
Félagið er áhugamannafélag, opið konum á öllum aldri, sem áhuga hafa á kórsöng og eru búsettar á svæðinu. Starfsárið er frá 1. september til 31. ágúst.
3. grein
Tilgangur og markmið félagsins eru að:
– Þjálfa félagsmenn í kórsöng.
– Æfa saman a.m.k. 2 klst. í viku yfir vetrarmánuðina.
– Efna til tónleika svo oft sem aðstæður leyfa.
– Halda a.m.k. tvenna æfingadaga á starfsárinu, annan fyrir áramót og hinn eftir áramót.
– Stuðla að auknum kynnum kórfélaga með skemmtunum og öðrum uppákomum.
4. grein
Stjórn félagsins skal skipuð formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera og einum meðstjórnanda. Ný stjórn skal kosin á aðalfundi, sem skal halda að hausti ár hvert og eigi síðar en 30. september. Hvert embætti skal skipað til eins árs, þó má ekki endurnýja fleiri en tvo stjórnarmeðlimi í einu. Á aðalfundi skal einnig kjósa tvo skoðunarmenn ársreikninga og einn til vara. Stjórnarskipti fara fram í framhaldi af aðalfundi.
5. grein
Stjórnin skal skipuleggja og stýra starfi félagsins og fer með framkvæmda- og ákvörðunarvald þess. Hún skipar nefndir og boðar til samráðsfunda þegar henni þykir þörf á. Hún hefur heimild til að kalla sérhvern almennan félaga sér til aðstoðar um starfsemi félagsins. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum á fundum stjórnar, en falli atkvæði jöfn hefur formaður úrslitaatkvæði.
Stjórnin er ákvörðunarhæf ef a.m.k. helmingur stjórnarmanna er mættur. Til að skuldbinda félagið þarf a.m.k. undirskrift formanns og annars stjórnarmanns, en gjaldkeri og formaður hafa prókúru á reikninga félagsins. Stjórnin er ábyrg gerða sinna fyrir aðalfundi og telst hann lögmætur ef löglega er til hans boðað, sjá 8. grein.
6. grein
Stjórn félagsins skiptir með sér verkum á 1. stjórnarfundi nýs starfsárs. Gera skal starfsáætlun í byrjun hvers starfsárs til að styðjast við. Einnig skal halda félagatal og mætingalista yfir æfingar.
Starfsemi félagsins skal fjármagna með félagsgjöldum og styrkjum. Aðalfundur ákveður upphæð félagsgjalda og gjalddaga. Stjórn félagsins ræður til sín kórstjóra og gerir við hann starfssamning. Laun hans skal ákveða í byrjun starfsárs. Lagavalsnefnd skal starfa með kórstjóra.
7.grein
Reikningsárið er er það sama og starfsárið, þ.e. 1. september til 31. ágúst. Gjaldkeri skal afhenda ársreikninga ásamt fylgiskjölum til kjörinna skoðunarmanna félagsins eigi síðar en 14 dögum fyrir aðalfund. Ársreikningar félagsins áritaðir af skoðunarmönnum skulu lagðir fram á aðalfundi til umræðu og samþykktar.
8. grein
Stjórn félagsins skal boða til aðalfundar með minnst viku fyrirvara. Dagskrá aðafundar skal fylgja aðalfundarboði.
Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
1. Fundur settur.
2. Skipan fundarstjóra og fundarrritara.
3. Lestur fundargerðar síðasta aðalfundar.
4. Skýrsla stjórnar og umræður.
5. Ársreikningar félagsins lagðir fram til umræðu og samþykktar.
6. Kosning tveggja skoðunarmanna ársreikninga og eins til vara.
7. Kosning stjórnar.
8. Lagabreytingar.
9. grein
Breytingar á lögum þessum má aðeins gera á aðalfundi. Breytingar skulu birtar orðréttar með aðalfundarboði. Lagabreytingar ná því aðeins fram að ganga ef a.m.k. 2/3 fundarmanna samþykkir þær.
10. grein
Verði félagið lagt niður, skulu eigur þess renna til góðgerðamála. Einungis má leggja félagið niður, ef fram kemur tillaga um slíkt á aðalfundi, fundurinn löglega boðaður og a.m.k. 2/3 fundarmanna séu því samþykkir. Sá aðalfundur ákveður til hvaða góðgerðarmála eigur félagsins renna.
Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi félagsins 25. maí 2014 og koma í stað laga sem samþykkt voru á aðalfundi félagsins 29. maí 2013.