Landsmótslag og ljóð

Landsmótsljóðið
Jakobína Sigurðardóttir er höfundur landsmótsljóðsins.
Jakobína var fædd 8. júlí 1918 í Hælavík í Sléttuhreppi og lést
29. Janúar 1994. Hún stundaði nám við Ingimarsskólann í
Reykjavík og nam utanskóla við Kennaraskóla Íslands í hálfan
vetur. Árið 1949 fluttist hún að Garði í Mývatnssveit, þar sem
hún síðan var húsfreyja. Jakobína var með þekktustu
rithöfundum landsins á sinni tíð og var í heiðurslaunaflokki
listamanna á efri árum.

Vor í Garði
Ég horfi út um gluggann í heiðríkju dagsins,
og hjarta mitt tekur að slá
með örlitlum sting, því við eyru mér hvísla
með áleitni draumur og þrá:
„Æ, komdu, því úti er angan úr jörðu.
Nú yrkir hvert grænkandi strá.

Hvað skiptir það máli, þó matargerð seinki?
Hver mannsævi er hraðlifuð stund.
Og óbættar flíkur og óhreinir sokkar
eru þér hlekkir um mund.
Æ, gleymdu því, komdu og eigðu með okkur
og angandi vorinu fund.“

Ég sé hvernig vatnið og veröldin ljómar,
og vængjanna fagnandi þyt
ég heyri í lofti, en höfðar og eyjar
sér hreykja með gróandans lit.
Mig langar að slíta af mér hlekki og hlaupa
hlæjandi á sóldagsins vit.

Þá lít ég á glókoll minn ljúfan við svæfil.
Ég legg frá mér drauminn og hlæ.
Því hér er mitt verksvið, mín von og mín skylda.
Svo veröldin kasti ekki á glæ
draumunum hennar, skal hugur minn sættur
við heimskuleg störf – inni í bæ.

Landsmótslagið
Hugi Guðmundsson höfundur landsmótslagsins er fæddur árið
1977 í Reykjavík en á ættir að rekja til Akureyrar.
Hann hófur ungur nám í gítarleik hjá Pétri Jónassyni en lagði
síðar stund á tónsmíðar við Tónlistarskólann í Reykjavík og við
Konunglegu Tónlistarakademíuna í Kaupmannahöfn. Síðar nam
hann raf- og tölvutónlist við Sonology stofnunina í Den Haag í
Hollandi.
Verk Huga spanna allt frá einleiksverkum til hljómsveitarverka og eru verk hans
leikin reglulega bæði hér heima og erlendis. Hugi býr nú í Kaupmannahöfn.