Kvennakór Akureyrar fór í söngför til Kanada sumarið 2012 og tók meðal annars þátt í Íslendingadeginum í Gimli. Formaður kórsins skráði ferðasöguna.
Söngferðalag Kvennakórs Akureyrar til Kanada 2012
Kvennakór Akureyrar hefur það að markmiði sínu að fara erlendis í söngferð að jafnaði fjórða hvert ár. Haustið 2011 kom upp sú hugmynd hjá kórnum að fara á Íslendingaslóðir í Kanada og taka þátt í hátíðahöldum á Íslendingadeginum í Gimli. Ákveðið var að fara með ferðaskrifstofunni Vesturheimi sem sérhæfði sig í ferðum á Íslendinga slóðir í Vesturheimi. Það komu upp nokkur vandamál í skipulagningunni síðar um haustið og um tíma virtist sem ekkert yrði úr ferðinni. Iceland express hætti að fljúga til Winnipeg, ferðaskrifstofan varð gjaldþrota og á ýmsu gekk. En ekki gáfumst við upp og eftir töluverðar vangaveltur og kannanir var ákveðið að fara með ferðaskrifstofunni Bændaferðum og ferðin varð að veruleika.
Við tóku stífar æfingar og kórinn getur nú til dæmis sungið þjóðsöngva Íslands, Kanada og Bandaríkjanna rétt eins ekkert sé. Prógrammið var tvískipt, íslensk þjóðlög og blanda af erlendum lögum af ýmsu tagi. Ákveðið var að kórinn myndi syngja á þremur tónleikum; í Gimli, Riverton og Minneapolis, auk þess að taka þátt í hátíðahöldunum á Íslendingadeginum í Gimli. Í för með okkur konunum var að sjálfsögðu kórstjórinn okkar, Daníel Þorsteinsson og slatti af puntstráum. Puntstrá eru nánir aðstandendur eða áhangendur kvenna í Kvennakór Akureyrar, aðallega þó eiginmenn kórkvenna. Það er lögð sérstök áhersla fyrri hluta orðsins, það er – PUNT.
Við flugum til Minneapolis og ókum þaðan norður til Kanada. Reyndar þurfti kórinn að fljúga út í tveimur hollum með dags millibili en það kom ekki að sök, þær kaupglöðustu fóru í fyrri hópnum…. að sögn okkar sem seinna fórum. Hóparnir sameinuðustu í Minneapolis að kvöldi 3. ágúst, fyrri hópurinn var þá búinn að skoða sig aðeins um og versla.
Að morgni laugardagins 4.ágúst var lagt af stað til Kanada. Hrafnhildur Sigmarsdóttir var fararstóri í rútunni minni og Jónas Þór, aðalfararstjóri hópsins, í hinni. Það tók um einn og hálfan dag að aka norður til Winnipeg. Það fór vel um hópinn í tveim góðum 35 manna rútum. Það er ekki mikið um sextíu manna rútur á þessum slóðum í Ameríku, annað en á mjóu vegunum á Íslandi! Bilstjórarnir voru mjög liprir og elskulegir, vildu allt fyrir okkur gera.
Við kórkonur höfðum hlustað á Atla Ásmundsson ræðismann Íslands í Kanada segja frá Vestur Íslendingum. Ég man að hann sagði frá því að hann hefði fyrst vitað hvað cruise control var þegar hann fór þangað vestur. Það væri bókstaflega ekið í sömu átt heilu dagana. Og landslagið væri ; ,, að hugsa eitthvað flatt og fletja það svo enn meira út‘‘. Þetta var alveg rétt hjá honum, allavega séð með augum norðlensku daladótturinnar! Á leið norður sögðu fararstjórarnir frá upphafi búsetu Vestur Íslendinga á þessum slóðum. Ég man sérstaklega eftir því að Hrafnhildur varð hálf klökk þegar ekið var um sléttur Norður- Dakóta, bestu landbúnaðar héruð Norður Ameriku. Þar lá leið islensku landnemanna um og í stað þess að setjast þar að héldu þeir norður til Manitoba þar sem ýmsar hörmungar biðu þeirra. Á leiðinni til Grand Forks sem var næsti gististaður á leiðinni var áð í bænum Alexandríu og skoðað norrænt byggðasafn. Ýmislegt var þar öðruvísi en á íslenskum byggðasöfnum. Kórinn tók að sjálfsögðu lagið í kirkju í safninu og þar hljómaði íslenskur söngur jafnvel og heima.
Þriðji dagurinn rann upp og nú magnaðist spennan, Kanada var rétt handan við sjóndeildarhringinn. Það er ekki hægt að tala um, handan við næsta hól, þarna! Fararstjórarnir voru búnir að tala mikið um smámunasemi kanadísku landamæravarðanna. Ekkert áfengi mátti vera uppi og ekkert matarkyns, þeir væru meira að segja vísir til að skoða í töskur. Nú voru góð ráð dýr, það var eitthvað eftir af smá vínflöskum – jafnvel slatti í einum og einum koníaksfleyg í handfarangri. Við söngkonurnar máttum ekki drekka dropa af víni þar til eftir tónleika og ekki dugði að láta tollarana gera þetta upptækt. Það var því hellt vel upp á puntstráin áður en komið var að landamærunum! En svo gekk allt eins og í sögu, það kom í ljós að þarna var tollvörður af íslenskum ættum sem brosti út í bæði og lét við okkur eins og við værum nánir ættingjar. Til Winnipeg var komið um hádegi. Áður en haldið var áfram til Gimli var stoppað við þinghúsið og heilsað upp á Jón Sigurðsson, það er að segja minnismerkið. Þar heyrðum við söguna um deilurnar varðandi staðsetningu styttunnar.
Það var sérstakt að sjá alíslensk nöfn á sveitabæjum á leiðinni norður til Gimli og íslenska fánann við hún. Um kvöldið söng kórinn á hátíðatónleikum í Gimli, The Celebrity Concert, í Johnson Hall við góðar undirtektir. Þar voru meðal annarra gestir frá Íslandi til að mynda bæjarstjóri okkar Akureyringa og kona hans. Á tónleikunum var einnig Rósalind Vigfússon. Rósalind er vel þekkt í vestur íslensku samfélagi og einkum fyrir að stofna og stjórna barnakórum. Hún kennir börnum af vestur íslenskum ættum íslensku með söng. Mjög merkileg kona. Kórinn söng eitt lag eftir hana, Minni Íslands. Ljóðið er eftir Vestur Íslendinginn Böðvar Jakobsson. Þetta var í fyrsta sinn sem þetta lag er flutt af íslenskum kór og vakti mikla lukku. Eftir vel heppnaða tónleika var haldið aftur heim á hótel í Winnipeg.
Mánudaginn 4.ágúst var lagt eldsnemma af stað til Gimli enda stóð mikið til. Þennan dag var Íslendingadagurinn haldinn hátíðlegur í Gimli og Kvennakór Akureyrar tók fullan þátt í hátíðahöldunum. Íslendingadagurinn í Gimli á sér langa sögu eða allt frá árinu 1932. Við tókum fyrst þátt í heljarinnar skrúðgöngu, það var engin venjuleg skrúðganga. Við sátum á heyböggum sem voru upp á risastórum vagni eða trailer. Ekið var um götur Gimli í um eina klukkustund í langri lest annara ökutækja. Daníel kórstjóri var fremstur með nikkuna og kórkonur og puntstrá röðuðu sér beggja vegna eftir endilöngum vagninum. Við sungum eins og enginn væri morgundagurinn, ég hélt hreinlega að Daníel væri búinn að gleyma því að kórinn átti að syngja fallega á hátíðasamkomunni eftir hádegi. Vinsælasta lagið var án efa, á Sprengisandi. Það virtust margir kannast við það lag, enda kom í ljós að Rósalind var mikið með það lag í barnakórunum sínum. Kanadíski og íslenski fánarnir blöktu allstaðar og fólkið fagnaði ákaft. Okkur leið eins og drottningum, þetta var ógleymanleg upplifun. Eftir hádegi tók kórinn þátt í hátíðasamkomu, þar eru ýmsar venjur hafðar í hávegum, fjallkonan kemur í fullum skrúða, sungin lög eins og Fósturlandsins Freyja, Eldgamla ísafold og enska útgáfan – God save the Queen auk þjóðsöngva beggja landa. Og ótrúlega mikið af ræðum ! Það var glatt á í rútunum á heimleiðinni og mikið sungið, góður dagur á enda.
Þriðjudagurinn 5.ágúst rann upp og þá var farið í skoðunarferð til Nýja Íslands m.a til Árborgar og Mikleyjar. Í Árborg skoðuðum við byggðasafn sem tengdist landnemum á þessu svæði m.a. Íslendingum. Við heimsóttum einnig Rósalind og Einar Vigfússon á býli þeirra Drangey skammt frá Árborg. Einar er ekki síður merkilegur en Rósalind en hann er mjög þekktur fyrir listilegan útskurð, einkum fugla. Það var mjög eftirminnilegt að koma til Mikleyjar eða Hecla. Þar var áður alíslensk byggð. Þar hittum við Maxemine Ingals sem er af íslenskum ættum og vinnur við að sýna íslensku ferðafólki byggðina. Það var afar sérstakt að rölta um kirkjugarðinn á eynni. Það var rétt eins og að vera í íslenskum kirkjugarði. Íslensk nöfn og íslensk grafskrift. Við enduðum á söng í kirkjunni, sungum alíslenskan sálm frá sautjándu öld, Jesú mín morgunstjarna. Það var vel við hæfi. Dagurinn endaði á tónleikum í Riverton. Þar eins og allstaðar var tekið á móti okkur með kostum og kynjum. En það var mjög heitt inni og við vorum að kafna í skósíðum kórkjólunum. Ekki bætti úr að bæjarstjórinn í Riverton, Davíð Gíslason hélt sérlega langa ræðu í upphafi og héldum við kórkonur að nú væri okkar síðasta stund upprunnin. Kvennakór Akureyrar myndi hreinlega andast úr hita. En við lifðum þetta af og það var einstaklega gaman að syngja fyrir fólkið þarna. Þetta var svolítið eins og að vera með tónleika í rammíslensku félagsheimili á Íslandi. Á eftir svignuðu borðin undan vínartertum og öðrum kræsingum. Það voru þreyttar en ánægðar konur og puntstrá sem héldu aftur heim á hótel í Winnipeg.
Daginn eftir kvöddum við Kanada með trega í hjörtum og góðum minningum um einstaklega gestrisið fólk. Ferðalagið aftur til Minneapolis gekk vel. Við hittum aftur á brosmildan vestur íslenskan landamæravörð en nú Bandaríkja megin. Bílstjórarnir höfðu sjaldan farið jafn auðveldlega fram og til baka yfir landamærin. Gist var í bænum Fargó á leiðinni til Minneapolis. Kórkonur og puntstrá gerðu sér glaðan dag og slökuðu á eftir mikla keyrslu undanfarinna daga, söngur og harmonikkuspil ómaði langt fram á kvöld.
Við komum aftur til Minneapolis fimmtudagskvöldið 10. ágúst – með smá stoppi í Albertville Premium Outlet. Það var ekki amaleg staðsetningin á síðasta gististað ferðarinnar, Spring Hill Suites, verslunar miðstöðin Mall of the Amerika var rétt handan götunnar….. Kór og puntstrá eyddu síðustu dögum ferðarinnar í Minneapolis meðal annars við verslun, söng og siglingu á Missisippi.
Föstudagskvöldið 11.ágúst söng kórinn þriðju og síðustu tónleikana í ferðinni. Þeir tónleikar voru haldnir í Grace University Lutherian Church og voru á vegum Íslendinga félagsins í Minneapolis. Það var öðruvísi að halda tónleika í Minneapolis en norður í Kanada, einhvernvegin ekki eins mikil nánd við tónleikagesti. En eins og áður var söng okkar mjög vel tekið af þakklátum áheyrendum.
Næst síðasta dag ferðarinnar, laugardag 12 . ágúst, fór hópurinn í siglingu með fljótabát á Missisippi. Það var mjög gaman, snæddum dýrindis hádegisverð og um borð hljómaði lifandi banjótónlist. Við tókum að sjálfsögðu lagið fyrir aðra gesti á bátnum og á Missisippi fljótinu ómuðu um stund íslensk þjóðlög auk annara tónsmíða.
Síðdegis sunnudaginn 13. ágúst kvaddi Kvennakór Akureyrar og fylgdarlið Minneapolis og hélt heim eftir vel heppnaða söngför til Vesturheims.
Það er frábært að vera í góðum og samstilltum kór, að geta deilt gleði og sorg með kórfélögum. Að fara að auki í svona ferðalag með kórnum sínum er ómetanleg upplifun. Það er svo gaman, við kynnumst betur og það þjappar okkur enn betur saman.