Lag: Torfi Ólafsson. Ljóð: Þorsteinn Valdimarsson. Úts.: Marteinn H. Friðriksson
Ég skar mér fiðlu
úr skógargrein,
og skærri tón
á ei önnur nein,
þó vítt og langt væri leitað.
En fáir þekkja þann huliðshljóm,
hve hann er tær,
nema dalsins blóm –
og vorbjört nóttin, hún veit það.
Því fiðlan byrgir
í barm sér hljóð
hið bjarta undur,
sitt hulduljóð,
í verðgangsbyggðum og borgum.
Hún þekkir geð yðar,
góða fólk,
og gneggjar og jarmar
og skilur mjólk
að boði trúðsins á torgum.
Ég skar hana sjálfur,
skoðið þér,
ég skar hennar strengi
úr brjósti mér
af veilum huga og hálfum.
Ég skar hana´ um óttu
við skugga mót;
hin skorna björk
hafði tvenna rót,
og stendur önnur með álfum.