Álfakóngurinn

Lag: Heimir Sindrason. Ljóð Ari Harðarson.

Í klettum og klöppum býr konungur hér
og á kvöldin hann birtist mér.
Hann kórónu skartar og skrautbúnum staf,
og hann sendi mér fák, þegar fólkið allt svaf.
Við fölbleikan makkann lá gullofið sjal
og í hnakki var steinaval.
Frá hófum hans hljómuðu öll heimsins hljóð
vindurinn hvíslaði fegurstu ljóð
og saman við svifum um klettanna lönd,
geystumst á tölti um demanta strönd,
hjá álfum sem söngluðu komdu hér,
vertu hér, kölluðu vertu hjá mér.

Ó engillinn ungi ég ann þér svo heitt,
en í vængi þér blása verð
svo brjósið þitt vaxi og verði svo breitt
að það beri þig þangað sem ljósið þú sérð.
Látt´ekki villast burt veginum frá,
ekki álfana í þig ná.
Því öll djásn í heiminum gleðja ei geð,
ef engan þú hefur að deila því með
en hvað sem þú gerir og hvað sem þú sérð
hjá þér í huganum alltaf ég verð
hjá þér í huganum ætið þú ert hjá mér,
í mínum huga þú ert.

Sárlega, sárlega sakna ég þín,
svo ég sendi þér auðæfi mín.
Fjöllin sem umvefja fjarðanna sæ,
fjólunnar angan og sumarsins blæ
Lontur í lækjum og leiki með strá
opin augu sem landið sjá
Sólroða kvöldsins og vatnanna kyrrð,
kvakið frá álftum úr bláleitri firrð
og saman við svífum um regnbogans lönd,
geysumst á spretti um fjarlæga strönd
með vindum sem hvísluðu komdu hér,
fylgdu mér, hvísluðu komdu með mér.

En hvað sem ég geri og hvar sem ég er
mín framtíð er mótuð í faðmi hjá þér
faðmi þér Ísland, mitt föðurland Ísland,
já, Ísland í faðmi þér.