Ágrip af sögu kórsins
Fyrstu drög að kórnum ná aftur til ársins 1997 þegar hópur kvenna tengdar íþróttafélaginu KA ákvað að stofna blandaðan kór sem syngi aðallega létta dægurtónlist. Illa gekk að fá karlaraddir í kórinn, og var honum þá breytt í kvennakór. Veturinn 2000-2001 voru aðeins 16 kórfélagar starfandi og því var ákveðið að kynna starfsemina með söng á kaffihúsinu Bláu Könnunni og auglýsa um leið eftir kórfélögum í nýjan kvennakór. Viðbrögð voru á þann veg að kórfélögum fjölgaði í 100 manns á næstu vikum.
Á aðalfundi árið 2001 var ákveðið að gefa kórnum formlega nafnið Kvennakór Akureyrar og síðan þá hefur tala kórkvenna rokkað frá 50 – 80.
Frá byrjun og til ársins 2003 var stjórnandi kórsins Björn Leifsson, en þá tók við stjórn Þórhildur Örvarsdóttir og stjórnaði í tvö ár. Haustið 2005 tók svo við stjórn Arnór H. Vilbergsson og stjórnaði til hausts 2008, en þá tók Jaan Alavere við í eina önn. Frá vorönn 2009 til loka starfsárs 2016 var Daníel Þorsteinsson stjórnandi kórsins og undirleikari. Haustið 2016 og fram í mars 2017 stýrði Sólveig Anna Aradóttir kórnum en þá tók við Sigrún Magna Þórsteinsdóttir og stjórnaði til hausts 2019. Þá tók við Valmar Väljaots sem enn er við stjórn haustið 2022.
Kórinn flytur íslensk og erlend lög og er með metnaðarfulla og fjölbreytta dagskrá.
Kvennakór Akureyrar heldur aðaltónleika á Akureyri að vori ár hvert, auk jólatónleika þar sem kórinn syngur, í samvinnu við aðra kóra eða söngvara, jólalög lengst af til styrktar Mæðrastyrksnefnd Akureyrar. Einnig er sungið við ýmis önnur tækifæri. Fyrir lok hvers starfsárs hefur kórinn farið í styttri ferðalög og haldið tónleika í nágrannasveitum eða öðrum bæjarfélögum.
Kórinn hefur fimm sinnum farið í utanlandsferðir til tónleikahalds. Sumarið 2005 lagði kórinn upp í sína fyrstu utanlandsferð og var ferðinni heitið til Slóveníu. Tókst sú ferð afar vel, haldnir voru þrennir tónleikar og landið skoðað vítt og breitt. Vorið 2008 gaf kórinn út sinn fyrsta geisladisk, sem hlaut nafnið Sólardans á vori og um sumarið var farið í aðra söngför og nú til Eistlands. Sú ferð tókst einnig mjög vel, haldnir voru þrennir tónleikar og auk þess var lagið tekið við ýmis tækifæri. Gist var í þremur borgum, og farnar skoðunarferðir um landið. Sumarið 2012 var haldið til Kanada og þar tekið þátt í hátíðahöldum Íslendingadagsins í Gimli auk fleiri tónleika í Kanada og Norður-Ameríku. Sumarið 2016 var farin söngför til Króatíu og 2019 til Ítalíu. Um allar þessar ferðir og um starf hvers árs má lesa hér á síðunni undir tenglinum Sagan frá ári til árs