Halldór Laxness
Hvert örstutt spor var auðnuspor með þér,
hvert andartak er tafðir þú hjá mér
var sólskinsstund og sæludraumur hár,
minn sáttmáli við Guð um þúsund ár.
Hvað jafnast á við andardráttinn þinn?
Hve öll sú gleði’ er fyrr naut hugur minn
er orðin hljómlaus, utangátta’ og tóm
hjá undri því að heyra þennan róm,
hjá undri því að líta lítinn fót
í litlum skóm og vita’ að heimsins grjót
svo hart og sárt er honum fjarri enn
og heimsins ráð sem brugga vondir menn.
Já, vita eitthvað anda hér á jörð
er ofar standi minni þakkargjörð
í stundareilífð eina sumarnótt.
ó, alheimsljós, ó, mynd sem hverfur skjótt.