Á aðalfundi Kvennakórs Akureyrar, sem haldinn var í Brekkuskóla þann 17. september 2017, gaf öll sitjandi stjórn kost á sér til áframhaldandi setu og fékk staðfestingu fundarkvenna. Stjórnin veturinn 2017-2018 var því skipuð þeim Þórunni Jónsdóttur, formanni, Höllu Sigurðardóttur, varaformanni, Valdísi Björk Þorsteinsdóttur, ritara, Önnu Breiðfjörð Sigurðardóttur, gjaldkera, og Margréti Ragúels meðstjórnanda og lyklaverði. Raddformenn voru Guðrún Hreinsdóttir alt 1, Lilja Jóhannsdóttir alt 2, Hafdís Þorvaldsdóttir sópran 1 og Stella Sverrisdóttir sópran 2.
Starf vetrarins 2017-2018 hófst með raddprufum og æfingu 10. september. Æfingar voru einu sinni í viku í Brekkuskóla, á sunnudögum kl. 16:45-19:00.
Sigrún Magna Þórsteinsdóttir sem tekið hafði við kórstjórninni þá um vorið hélt áfram störfum þetta starfsár.
Starfið um haustið hófst á undirbúningi hausttónleika þar sem vortónleikar höfðu fallið niður og voru þeir haldnir í Akureyrarkirkju sunnudaginn 8. október. Kórinn söng í bleikri messu þá um kvöldið og fékk því að halda tónleikana án annars endurgjalds fyrir húsnæðið.
Sama dag, eða 8. október var einnig ráðist í það þarfa og tímabæra verkefni að taka nýja mynd af kórnum, en allar myndir sem voru til af kórnum sýndu Daníel sem kórstjóra.
Kórinn hélt jólatónleika í Akureyrarkirkju að kvöldi 14. desember í samstarfi við Kammerkórinn Ísold. Tónleikarnir voru vel sóttir og heppnuðust vel. Sem greiðsla fyrir afnot af kirkjunni söng kórinn í messu á konudag þann 18. febrúar.
Þann 7. apríl voru haldnir tónleikar í Miðgarði í Skagafirði þar sem 3 kvennakórar komu fram, þ.e. Kvennakórinn Sóldís í Skagafirði, Kvennakórinn Embla á Akureyri og Kvennakór Akureyrar. Að afloknum tónleikum var svo skemmtun í Miðgarði. Skemmtinefnd vetrarins, sópran 1, undirbjó skemmtidagskrá, meðal annars forláta myndband sem greindi frá ferðasögu kórsins á landsmót kvennakóra 2017.
Vortónleikar kórsins voru haldnir á mæðradaginn, þann 13. maí í Akureyrarkirkju. Kórinn söng í messu um morguninn og tók óvænt þátt í fermingu og skírn. Tónleikarnir voru svo kl. 14:00 og efnisskráin einkenndist af lögum sem ýmist voru samin á sjöunda áratug síðustu aldar, eða höfðu sterk tengsl inn í þann áratug. Dusty Springfield og Elly Vilhjálms ómuðu úr hverjum hálsi. Tónleikarnir lukkuðust afar vel og eftir á var tónleikagestum boðið á kökuhlaðborð að hætti kórkvenna.
Kórinn hélt tvo æfingadaga yfir veturinn, 23. september og 17. febrúar. Annar æfingardagurinn var haldinn að Þórisstöðum á Svalbarðsströnd en hinn í Brekkuskóla.
Stjórnin hélt 8 fundi með fundargerðum yfir veturinn en hafði milli þeirra víðtækt samstarf í gegnum Facebook, tölvupóst og aðra miðla. Áhersla var lögð á að funda oftar með stjórnanda kórsins en áður hafði verið gert og gekk það samstarf vel.
Búningavörður kórsins til margra ára, Þorbjörg Þórisdóttir, hætti í kórnum fyrir aðalfundinn 2017. Þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar eftir arftaka hennar, gaf engin kórkona sig fram til að taka við starfinu. Því var brugðið á það ráð að semja við Litlu saumastofuna í Brekkugötu um að geyma kjólana. Aukalegt gjald var innheimt af kórkonum til að greiða fyrir þessa þjónustu.
Í lok vetrar voru 59 konur skráðar í kórinn. Fyrsti alt var fjölmennasta röddin, skipuð 20 konum. Þá voru 17 konur í sópran tvö, 12 í alt tvö og fámennasta röddin var sópran eitt með 10 konum. Þetta ójafnvægi getur orðið hamlandi fyrir gæði söngsins og því var ákveðið að auglýsa sérstaklega eftir söngkonum í fyrsta sópran í haust.
Stærsta verkefni komandi vetrar er að undirbúa ferð kórsins til Ítalíu um lok júní til byrjun júlí 2019. Þá mun kórinn syngja á kóramóti í Verona en halda svo til Gardavatns til að njóta lífsins.