Afmæliskveðja
Ljóð: Haraldur Stígsson. Lag: Halldór Smárason, samið fyrir Gígjuna, samband íslenskra kvennakóra, fyrir kóramót á Ísafirði 11.-14. maí 2017.
Ég rakst heim á bæ þinn og sá að þú sast þar
með soninn þinn yngsta á kné
og raulaðir vísur úr vinsælum kvæðum
svo vel að ég dró mig í hlé,
en um ykkur ljómaði síðdegissólin
og síðan er þessi mynd
greipt mér í sinni og gleymist aldrei.
Það getur ei verið synd.
Ég staðnæmdist rétt eins og steini lostinn
og starði á barnið og þig.
Og eitthvað, sem ég hef víst aldrei síðan
upplifað kom yfir mig,
ruddi sér braut inn í hug minn og hjarta
og heldur þar stöðugan vörð,
sýnir mér enn gegnum hatur og heimsku
himneskan frið á jörð.
Þú raulaðir lögin og laust yfir barnið,
ég lagði við hlustir og beið.
Og tónarnir minntu á heiðríkju hugans
og hamingju draum þinn um leið.
Mér þótti sem opnuðust huliðsheimar,
svo hljómaði tilveran öll.
Og bærinn þinn litli var allt í einu
orðinn að konungshöll.
Svo laukst þú við braginn og brostir með aðgát
við barninu þínu og mér,
og heilsaðir kímileit kyndugum gesti
er kafrjóður svaraði þér,
en hvarf því næst álútur eins og í leiðslu
út úr bænum og heim.
Brekkan hún ljómaði, björgin, þau sungu
og blíðviðrið fagnaði þeim.