Ljóð: Tryggvi Helgason. Lag: Birgir Helgason
Um Kjarnaskóg, um Kjarnaskóg
fer kliður vorsins enn í dag.
Um Kjarnaskóg, um Kjarnaskóg
nú kveð ég þennan litla brag.
Þar Brunná streymir blá og tær
og blóm í skjóli trjánna grær.
Um Kjarnaskóg, um Kjarnaskóg
fer kliður vorsins enn í dag.
Við eigum þennan unaðsreit,
með okkar höndum hér var sáð.
Hér gekk að verki glaðvær sveit
og góðum sigri var hér náð.
Um brekkur, mýri, bæjarhól,
er bráðum skógarlundur vænn,
er veitir gestum vorsins skjól,
á vetrum jafnvel fagurgrænn.
Nú sest ég undir vænan við
á vorsins dýra, mjúka feld,
og hlýð´á læk og lóuklið
hið langa, bjarta sumarkveld,
og finn í anda frið og ró
og fögnuð gamals verkamanns,
er nýjum gróðri bólstað bjó
á brjóstum þessa kalda lands.