Hauströkkur

Lag: Kristjana Arngrímsdóttir. Ljóð: Emilía Baldursdóttir. Úts.: Daníel Þorsteinsson

Ástin mín, hvar ertu nú þegar engið er fölnað?
Anganin horfin úr mónum, grasið er sölnað.
Hauströkkrið beri þér hljóðlega kveðjuna mína,
hauströkkrið breiði sig mjúkt yfir draumana þína.

Blóðrautt er lyngið sem blæði úr minningum sárum,
burkninn við lækinn er hnípinn og döggvaður tárum.
Blágresið ljúfa sem hlakkaði í vor til að vakna,
veit nú að haustið er gert til að skilja og sakna.

Haustlauf, hrímaðir morgnar,
héla í sporum er áttum við þar.
Sólblik á sölnuðu lyngi,
síðasta kveðjan um allt sem var.

Sumarið kom er við sátum hér forðum í næði,
sumarið líður of fljótt, við vissum það bæði.
Fortíðin gleymdist – framtíðin skipti ekki máli,
funheitar nætur tveim hjörtum í logandi báli.

Hauströkkrið nálgast, hugurinn fangaður trega,
hljóðnaðir fuglar – sumar á burt endanlega.
Víst er það sárt og söknuði fær ekkert bifað,
sárt – en þó ljúft að hafa um sumarnótt lifað.

Haustlauf, hrímaðir morgnar, o.s.frv.