Lag: Philipp Gretschner. Ljóð: Kristján frá Djúpalæk.
1. Tarantella
Kom þú, flýt þér. Sprett úr spori,
spræk og létt og hlaup þig rjóða.
Systirin mín góða sjá þú undrið
sólardans á vori.
Heyr þú söngvaseið í skýjum,
sjá þú heim í ljóma nýjum.
Sólar sigurdans á vori.
Veðurgnýr og glymur þagnar
gjöfum drottins jörðin fagnar.
Heill þér sólar sigur á vori.
Hjörtun fyllast þrá og þori
þegar dansar sól á vori
Skín og ljómar líf og þakkar
ljós á vori.
Tökum þátt í lífsins lofgjörð
létt og kvik og hröð í spori
sorgarinnar ranni söng í vekur
sólardans á vori.
2. In Venice
Sól skín á merkur og glóir í greinum,
gull eru skýin og silfur er haf.
Vekur hún blóm, hvert deyjandi dapurt,
djúpt undir kaldri mjöllinni svaf.
Sunnan um heiðar fer syngjandi blærinn,
svo er hann kær öllu lífi sem grær.
Skjótt gleymist allt sem var nístandi napurt,
dýrðlegt er saman að svífa um mar.
Seglið er vængur, hratt okkur ber´ann
heimveg í friðinn á óskanna ey.
Það verður dagur draumanna fagur
hraða því för þinni hamingju fley.
Land fyrir stafni, já eyjan mín aldna,
ilmgresi vafin og smábárum kysst
Dansaðu sól um hafflöt og himinn,
hér verður friðland elskenda gist.
3. Carretta siciliana
Glöð og ör á gólfi sands,
göngum við í léttan dans.
Aldan leikur undir,
ómblítt langar stundir.
Kvæði einnig kann hún góð
Kossavísur, ástaljóð
Óskastundin mun um þessar mundir.
Ég á eina fróma ósk,
ég á eina heita ósk
Verði öll vor ár
eins og þetta kvöld
ljúf og sæl við ljós og yl
Lifa þá ég hjá þér vil
allar stundir.
Skín nú gegnum skýjaull
skjöldur mána eins og gull.
Gef ég þér hann góða.
Gull er málmur fljóða.
Þú verður að þakka mér,
þessi koss of léttur er.
Þorsteinn kvað: Ég kyssi hana rjóða.
Eru þér í auga tár?
ástin mín hin næstu ár
lækna eyjan okkar mun
í örmum sínum feigðargrun.
Hún á völ á lyfjum söngs og ljóða.