Æfingar starfsársins 2006-2007 hófust 17. september í sal Brekkuskóla. Nokkrir nýir félagar gengu í kórinn og voru um 80 í upphafi vetrar. Kórstjóri var eins og árið á undan Arnór B. Vilbergsson.
Þann 6. október hélt Þórhildur Örvarsdóttir fyrrum kórstjóri Kvennakórsins raddþjálfunardag sem stóð frá 16:00 til 21:00. Tókst hann með ágætum, og var þátttaka góð.
Árshátíð kórsins var að þessu sinni haldin föstudaginn 20. október í Lóni við Hrísalund. Þátttakendur voru um 80 og skemmtu sér konunglega. Árshátíðarnefnd og skemmtinefnd sáu um framkvæmdina og stóðu sig með stakri prýði.
Æfingardagar voru tveir þetta starfsárið, eins og venja er til. Hinn fyrri var í Brekkuskóla 4. nóvember, en sá síðari var 11. febrúar einnig í Brekkuskóla.
Jólatónleikar til styrktar Mæðrastyrksnefndar Akureyrar voru haldnir sunnudaginn 26.nóvember í Glerárkirkju. Í þetta skiptið fengum við með okkur Kór Akureyrarkirkju og Barnakóra Akureyrarkirkju. Stjórnendur kóranna Arnór Brynjar Vilbergsson og Eyþór Ingi Jónsson léku einnig undir ásamt Stefáni Gunnarssyni, Halla Gulla og Snorra Guðvarðssyni sem einnig var kynnir tónleikanna. Eins og fyrr gáfu allir vinnu sína, tónlistarfólkið, auglýsendur og Glerárkirkja. Aldrei hefur safnast eins mikið og nú og vorum við afar þakklátar.
Litlu jólin voru haldin í Brekkuskóla 17. desember og hafði skemmtinefnd veg og vanda af undirbúningi þeirra að þessu sinni. Æfingar hófust að nýju eftir jólafrí þann 7. janúar.
Kórinn söng í messu Í Glerárkirkju 10. des og í messu á mæðradaginn 13. maí í Akureyrarkirkju. Einnig var sungið fyrir eldri borgara 2. febrúar á þorrablóti í Hlíð.
Vortónleikar voru haldnir í Akureyrarkirkju laugardaginn 24. mars. Undirleikarar voru þau Helga Bryndís Magnúsdóttir á píanó og Halli Gulli á trommur og stjórnandi var að sjálfsögðu Arnór B. Vilbergsson. Einsöngvari var Hildur Tryggvadóttir, sópran en auk hennar voru í fyrsta sinn í sögu kórsins einsöngvarar úr kórnum, þær Hólmfríður Þorsteinsdóttir, Linda Guðmundsdóttir, Sigríður Hulda Arnardóttir og Snæfríð Egilson. Tónleikarnir tókust með eindæmum vel og hafa aldrei fyrr verið svo vel sóttir. Má það m.a. þakka því að kórkonur seldu 3 miða hver í forsölu. Umfjöllun í fjölmiðlum var með besta móti og m.a. sungum við í beinni útsendingu í svæðisútvarpi Norðurlands. Eftir tónleikana var snæddur léttur kvöldverður á Vélsmiðjunni.
Jólakortahönnun og sala tókst vel þetta árið. Upp úr áramótum tók svo til starfa kraftmikil fjáröflunarnefnd. Þær gengu vasklega til starfa og brydduðum uppá ýmsum fjáröflunum.
Stjórnarfundir starfsársins 2006-2007 voru alls 8 auk ýmissa vinnufunda og vinnustunda. Auk stjórnarinnar störfuðu þó nokkrar nefndir innan kórsins, og einnig raddformenn og nótnavörður. Nefndirnar má sjá á sérstakri síðu undir tenglinum Stjórn.
Aðalfundur Gígjunnar var 10. mars og fór formaður kórsins ein á hann í þetta skiptið.
Aðalfundur Kvennakórs Akureyrar var haldinn 15. maí 2007 í Brekkuskóla. Mæting var nokkuð góð og umræður líflegar.
Laugardaginn 2. júní fengum við kvennakórinn Vox Femine í heimsókn til Akureyrar. Við sungum með þeim í Akureyrarkirkju og við Sundlaug Akureyrar og röltum svo syngjandi niður Listagil og niður í bæ. Þetta tókst prýðilega og höfðu kórfélagar beggja kóra gaman af.
Starfsárið 2006-2007 endað með því að taka þátt í Kórastefnu í Mývatnssveit helgina 7. – 10. júní. Listrænn stjórnandi Kórastefnunnar er Margrét Bóasdóttir sem er aðildarkórum Gígjunnar vel kunn. Á lokatónleikunum að þessu sinni fluttu kvennakórar heimstónlist, en blandaður kór og stúlknakór fluttu Mass of the Children eftir John Rutter ásamt Sinfoníuhljómsveit Norðurlands. Lynnel Joy Jenkins kom frá Bandaríkjunum til þess að stjórna heimstónlistinni hjá kvennakórunum sem sóttu kórastefnuna. Hún hefur nýverið lokið doktorsprófi í kórstjórn og er ein af aðalstjórnendum American Boychoir. Óhætt er að segja að afar lærdómsríkt og ánægjulegt hafi verið að taka þátt í þessarri dagskrá.