Fyrsti formlegi stjórnarfundur nýrrar stjórnar var haldinn 8. september. Alls urðu formlegir fundir 8 haldnir á Héraðsskjalasafninu, Bláu Könnunni eða í heimahúsum.
Þann 17. júlí flutti Þórhildur kórstjóri af landi brott. Nokkrar stjórnarkonur heimsóttu hana og kvöddu hana formlega með gjöf fyrir hönd kórsins. Í stað hennar var ráðinn sem kórstjóri Arnór B. Vilbergsson, sem okkur var að góðu kunnur og hafði oft starfað með kórnum sem undirleikari.
Þann 19. júlí héldum við myndakvöld á Amtscafé og var Ana Korbar heiðruð á fertugsafmæli sínu með gjöf frá kórnum fyrir frábæra fararstjórn og skipulagningu í Slóveníuferðinni.
Fyrsta æfing var svo sunnudaginn 11. september í Brekkuskóla. Æfingadagar voru tveir að venju, sá fyrri í Sal aldraðra í Bjargi þann 12. nóvember en sá seinni í Þelamerkurskóla þann 11. mars.
Árshátíðin var haldin í Bjargi að loknum fyrri æfingadeginum. Skemmtinefndin sá um árshátíðina og tókst hún í alla staði mjög vel.
Jólatónleikarnir, til styrktar Mæðrasktyrksnefnd, voru að þessu sinni haldnir í Brekkuskóla þann 4. desember. Þáttakendur ásamt okkur voru Stúlknakór Akureyrarkirkju og Karlakór Eyjafjarðar. Tónleikarnir tókust mjög vel og söfnuðust 206 þús. krónur, en kórinn lagði fram viðbót þannig að Mæðrastryrksnefnd voru afhentar um 250 þús. krónur.
Kórinn kom fram á nokkrum stöðum fyrir utan hefðbundið tónleikahald. Á kvennafrídaginn, þann 24. október voru sungin nokkur lög við hátíðahöld í Sjallanum, sungið var fyrir Framsóknarflokkinn 26. nóvember í Ketilhúsinu og fyrir viðskiptavini á Glerártorgi þann sama dag. Hluti af kórnum söng í Seli þann 13. desember og einnig var sungið við opnun skemmtistaðarins Rocco þann 1. apríl.
Þann 7. apríl héldum við vel heppnað skemmtikvöld í Laugaborg ásamt Karlakór Eyjafjarðar þar sem kórarnir skemmtu hver öðrum með söng og gamanmálum.
Litlu jólin voru haldin í Lóni 11. desember, sungin jólalög og smakkað á jólabakstri og fleira góðgæti.
Fjáraflanir á starfsárinu voru sala jólakorta, styrktarlínur í söngskrá og kaffismökkun fyrir Kaffibrennslu Akureyrar. Kórinn er með 3ja ára samning við Menningarsjóð Akureyrarbæjar, fyrir árið 2005 var styrkurinn kr. 200 þús. og fyrir árið 2006 kr. 250 þús.
Vortónleikarnir voru haldnir í Akureyrarkirkju sunndudaginn 26. mars. Þeir tókust mjög vel og voru um 200 manns í kirkjunni. Andrea Gylfadóttir söng einsöng með kórnum og Eyþór Ingi Jónsson og Snorri Guðvarðsson spiluðu undir.
Heimasíða fyrir kórinn var opnuð í janúar og höfum við fengið mjög jákvæð viðbrögð við henni. Hönnuður hennar er Þórarinn Jóhannsson nemi í Margmiðlunarskólanum og aðstoðar hann einnig við uppfærslu síðunnar.
Föstudaginn 12. maí kl. 17:00 lagði kórinn af stað í vorferð til Suðurnesja og haldnir voru tónleikar með Kvennakór Suðurnesja í Ytri Njarðvíkurkirkju, með undirleikurunum Geirþrúði Fanneyju Bogadóttur á píanó og Einari Þór Jóhannssyni á gítar. Kvennakór Suðurnesja tók afar vel á móti okkur og sáu þær til þess ásamt okkur sjálfum að helgin varð okkur ógleymanleg. Þar með lauk starfsárinu 2005-2006