Björn Leifsson 2001 – 2003

bjorn
Björn Leifsson

Björn Leifsson er fæddur í Reykjavík árið 1953. Hann er tónlistarkennari að mennt og sérhæfði sig í að kenna á ýmis blásturshljóðfæri. Kennaraprófinu lauk hann frá kennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík 1978 og klarínettukennaraprófi frá Guildhall School of Music and Drama árið 1981. Námskeið sem hann hefur sótt vegna tónlistar hafa borið hann víða: Til Svíþjóðar, Danmerkur, Noregs, Þýskalands, Kanada, Grænlands, Englands og einnig vítt og breitt um Ísland. Áður en hann tók kennaraprófið starfaði hann meðfram menntaskólanámi sínu lítillega við hljóðfærakennslu í Reykjavík, Hafnarfirði og síðar í Vestmannaeyjum, þar sem hann tvítugur að aldri var beðinn að stjórna Lúðrasveit Vestmannaeyja. Þetta var í janúar 1974, ári eftir að eldgosið í Heimaey hófst. Störf hans þar og við tónlistarskólann urðu til þess að hann ákvað að spreyta sig á vettvangi tónlistargyðjunnar.

Björn hefur sem tónlistarmaður komið við á ýmsum stöðum, en eftirfarandi listi er ekki tæmandi: Tónlistar-skóli Vestmannaeyja, Tónlistarskóli Hafnarfjarðar, Skólalúðrasveit Árbæjar- og Breiðholtshverfa, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Lúðrasveitin Svanur í Reykjavík, Sinfóníuhljómsveit áhugamanna í Saint Albans, Lúðrasveit Royal Academy of Music, og Hill House drengjaskólinn í London, Tónlistarskóli Borgarfjarðar, þar sem hann starfaði í 14 ár, þar af 9 sem skólastjóri, tónmenntakennari við Grunnskólann í Borgarnesi, stjórnandi Lúðrasveitar Borgarness, leiklistardeild UMF Skallagríms, stjórnandi Samkórs Mýramanna og organisti í afleysingum, félagi í danshljómsveitinni Seðlum, og þátttakandi og kennari á Skálholtsnámskeiðum söngmálastjóra þjóðkirkjunnar; 1994 flutti Björn til Akureyrar, þar sem hann starfaði m.a. sem kennari, lúðrasveitarstjórnandi og deildarstjóri við Tónlistar-skólann á Akureyri, hljóðfæraleikari við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Leikfélag Akureyrar, í Lúðrasveit Akureyrar og stjórnandi hennar um skeið, söng með Kór Akureyrar-kirkju og Kammerkór Norðurlands, stjórnaði hljómsveitum á vegum Félags harmonikuunnenda við Eyjafjörð, Karlakór Eyjafjarðar, og HAK-kórnum; frá haustinu 2003 hefur Björn starfað sem organisti við Snartarstaðakirkju, Skinnastaðar- og Garðskirkju og sem kennari og skólastjóri Tónlistarskóla Öxarfjarðarhéraðs, þar sem hann stjórnar og æfir skólahljómsveitir af ýmsu tagi. Samkór Mýramanna gaf út bæði segulband og geisladisk með söng sínum meðan Björn stjórnaði honum. Hann hefur einnig útsett lög og tónverk fyrir kóra, hljómsveitir og lúðrasveitir.

Síðast en ekki síst hefur Björn stjórnað Kór Knattspyrnufélags Akureyrar, KA-kórnum, sem kom fram í fyrsta sinn á 70 ára afmælishátíð félagsins. Upp úr honum spratt síðan Kvennakór Akureyrar, sem Björn stjórnaði frá stofnun hans 2001 til haustsins 2003.

Vinir Björns hafa gert grín að því við hann, að hann hafi stofnað kórinn til að ná sér í konuefni, og má það til sanns vegar færa.