Æfingar Kvennakórs Akureyrar undir stjórn Björns Leifssonar hófust á vordögum 2001 og voru þær haldnar í sal Tónlistarskólans á Akureyri. Mikill fjöldi kvenna hafði þá gengið til liðs við kórinn eftir kynningardag sem konur úr KA kórnum héldu á Bláu könnunni. Á sumardaginn fyrsta söng kórinn nokkur lög í safnaðarsal Glerárkirkju í kaffihlaðborði. Lokahóf var haldið á Græna hattinum 23. maí 2001.
Haustið 2001 hófust æfingar í september og hafði kórinn nú fengið æfingahúsnæði í Brekkuskóla, þ.e í sal gamla Gagnfræðaskólans.
Æfingadagar voru tveir, haldnir í Þelamerkurskóla og á Græna hattinum.
Fyrstu alvöru tónleikar kórsins voru haldnir í Glerárkirkju 9. mars 2002 kl. 15:00. Björn Leifsson var að sjálfsögðu stjórnandi og undirleikari var Arnór Vilbergsson. Gestasöngvari á þessum tónleikum var Alda Ingibergsdóttir sópran og undirleikari með henni Sólveig Anna Jónsdóttir.
Sótt var um styrk til menningarmálanefndar Akureyrarbæjar og fengum við kr. 100.000.-
Aðalfundur var haldinn 28. apríl 2002.
Æfingar voru áfram eftir aðalfund á sunnudögum fram að vorferðinni sem farin var austur í Illugastaði föstudagskvöldið 24. maí. Farið var með rútu austur og gist í 10 sumarhúsum. Snæddur var glæsilegur kvöldverður af hlaðborði frá Lostæti og síðan unað við söng og ýmis gamanmál fram eftir nóttu. Æfingadagur var svo haldinn á laugardeginum 25. maí, og síðan haldið heim með rútunni seinni partinn.
Kórinn söng við KA messu í Akureyrarkirkju sunnudaginn 26. maí, tókst það í alla staði mjög vel og þar með lauk vetrarstarfinu þennan fyrsta vetur Kvennakórs Akureyrar.