Lokapistill frá landsmótsnefnd

landsmotsnefnd

 

 

 

 

 

 

 

Kæru kórsystur

 

Nú eru bara nokkrir dagar  í landsmótið og við erum orðnar mjög spenntar að fá ykkur allar hingað til Akureyrar og hlökkum til að eyða næstu helgi með ykkur í söng og gleði.

 

Á móttökunni í Hofi á föstudaginn munu tengiliðir kóranna taka á móti ykkur og vera ykkur innan handar við að sýna ykkur Hof og finna aðstöðuna ykkar þar.

 

Söngsmiðjurnar eru á fimm stöðum í bænum. Skipulagðar ferðir verða frá Hofi (Rokk- og Þjóðlagasmiðja) og Skipagötu (Madrigalasmiðja) strax eftir söngsmiðjurnar báða dagana í hádegisverð í Íþróttahöllinni. Best væri að nýta þær rútur sem kórarnir koma á norður til þessara flutninga. Því biðjum við ykkur sem koma með rútu að hafa samband við okkur sem fyrst.

 

Minnið konurnar ykkar á hagnýt atriði eins og að;

  • koma með kórbúningana
  • muna eftir og merkja vel söngheftin sín
  • vera með vatnsflösku á sér
  • ekki vera með verðmæti í Hofi þar sem öll aðstaða er opin.

 

Óvissuferðin verður innan bæjarmarka Akureyrar og utandyra að mestu leyti. Gott er að hafa með sér hlýjan fatnað og góða skó og vonumst við til að sem flestar taki þátt í henni. Þetta verður svolítið rölt, þó ekki langt, en það væri afar gott að vita ef einhverjar þurfa að láta keyra sig á milli.

 

Ekki má gleyma galakjólnum / partýdressinu fyrir hátíðarkvöldverðinn en einnig verður hægt að koma við í miðbæ Akureyrar og á Glerártorgi og versla sér inn fyrir kvöldið.

 

Upplýsingar um landsmótið eru komnar inn á heimasíðu landsmótsins á www.kvak.is og á www.gigjan.is. Þar má einnig finna dagskrána, tónleikaskrá fyrir bæði laugardags- og sunnudagstónleikana og skiptingu kóranna á tónleikunum í Hofi.

 

Laugardaginn 10. maí verða tónleikar kóranna og þá er opið hús fyrir gesti og gangandi og þið kæru kórkonur getið notið þess að hlusta hver á aðra bæði í Hamraborginni og í Hömrum. Sunnudaginn 11. maí verða hátíðartónleikarnir. Þetta verður sannkölluð tónlistarveisla og aldrei hafa svo margar konur stigið á svið í Hamraborginni.

 

Hvetjum við ykkur allar til að auglýsa þessa viðburði vel þannig að við fyllum Menningarhúsið Hof af gestum.

 

Matseðlar helgarinnar eru inni á heimasíðunni og höfum við kappkostað að hafa sem fjölbreyttastan mat þannig að allir finni eitthvað við sitt hæfi. Við hvetjum ykkur til að hafa samband ef einhverjar séróskir eru vegna ofnæmis eða annars.

 

Dagskráin fyrir mótið er einnig í mótsblaðinu sem allar kórkonur fá við komu til Akureyrar á föstudaginn. Þar verður einnig tónleikaskrá mótsins.

 

Gangi ykkur öllum vel í ykkar undirbúningi fyrir landsmótið og við hittumst hressar og kátar og syngjandi glaðar í Menningarhúsin Hofi á föstudaginn.

 

Kær kveðja frá Kvennakór Akureyrar